Hrafnkell Óli Hrafnkelsson, sem Hæstiréttur dæmdi í sumar í tíu ára fangelsi fyrir hrottalegt ofbeldi og kynferðisbrot, kvartaði yfir dónaskap fangavarða á Litla-Hrauni og skorti á lyftingaaðstöðu í viðtali við Íslandi í dag á Stöð 2 í gær, þar sem fjallað var um fangelsið á Hólmsheiði.
Hrafnkell gaf í viðtalinu í skyn að hefði hann ekki verið handtekinn hefði hann mögulega myrt mann. „Ef ég hefði ekki komið í fangelsi þá hefði þessi tíu ára dómur getað farið í 16 ár,“ sagði Hrafnkell Óli.
Hrafnkell sagðist ætla að koma betri út úr fangelsinu og að hann væri búinn að snúa við blaðinu. „Ég er bara mjög ánægður að hafa komið í fangelsi. Ég var á röngum stað í lífinu og er búinn að snúa við blaðinu. Það geta allir farið og predikað að menn séu saklausir en staðreyndin er einfaldlega sú að það er búið að dæma mig og þetta er bara svona. Ég vil ekki fara ofan í málið mitt, það breytir í raun ekki neinu og er í fortíðinni,“ sagði Hrafnkell.
Hrafnkell birti í febrúar nokkurra mánaða gömul skrif þar sem hann sagðist vera saklaus af hinni hrottalegu árás. Þá birti hann einnig mynd af sér með skurð sem einn réttarmeinafræðingurinn telur að Hrafnkell hafi veitt sér sjálfur. Hrafnkell afplánar nú dóm sinn á Hólmsheiði en þar mega fangar ekki vera á netinu. Eftir að DV greindi frá skrifum Hrafnkels á Facebook fjarlægði hann þau.
Birti mynd af áverkum Hrafnkell birti mynd af áverkum á netinu. Þá sagðist hann saklaus.
Skorar á World Class að gefa
Hrafnkell sagði í viðtalinu við Stöð 2 að hann teldi mikið betra að vera á Litla-Hrauni en á Hólmsheiði. „Munurinn er varðandi aukabúnað. Ég myndi segja að það væri mun betra að vera á Hrauninu því þar má maður vera með tölvu og fleira. Líkamsræktarsalurinn er ekki salur með brennslutækjum, heldur þar eru einnig lóð með lyftingaaðstöðu, sem vantar hingað,“ sagði Hrafnkell sem skoraði á World Class að gefa föngum lyftingatæki.
Hrafnkell sagði að honum hafi ekki líkað við marga fangaverði á Litla-Hrauni ólíkt Hólmsheiði. „Mér hefur einhvern veginn tekist að líka vel alla hérna og það er aðeins öðruvísi kúltúr, miklu heimilislegra hér, maður lítur á fangaverðina hér liggur við sem vin. Fyrsta daginn sem ég kom sá ég einn strák hérna fara og tala við vörðinn, þá var það fyrsta sem ég gerði að segja: „Hvern andskotann ertu að gera? Skammastu þín, hvað ertu að tala við hann?“ Síðan fór ég sjálfur að gera þetta og fór út fyrir minn óþægindaramma,“ sagði Hrafnkell og bætti við að starfsfólkið á Litla-Hrauni væri dónalegra.
Hrafnkell Óli Mynd tekin á Litla-Hrauni og birt á Facebook-síðu Hrafnkels.
Hrottaleg frelsissvipting
Hrafnkell var dæmdur fyrir tilraun til manndráps, frelsissviptingu, nauðgun og líkamsárás en þolandi árásarinnar var barnsmóðir hans. Hann svipti konuna frelsi sínu frá klukkan 5:30 til 8 þann 24. júlí í fyrra. Samkvæmt dómnum þá kom hann óboðinn til konunnar ásamt félaga sínum eftir að hafa skemmt sér í miðbænum.
Eftir nokkrar tilraunir til að eiga við hana mök réðst Hrafnkell á hana og tók í háls hennar og reyndi að nauðga henni. Konan náði að fara úr rúminu en þá tók Hrafnkell í hálsinn á henni og tók hana niður á gólfið og hélt fast. Hrafnkell nauðgaði henni í rúminu, inni á baði og lamdi höfði hennar ítrekað í vegg í sturtunni og sagði henni að stynja.
Á einum tímapunkti reyndi konan að kalla á hjálp og þegar hún opnaði útidyrnar segir hún Hrafnkel hafa tekið hana hálstaki og reynt að kyrkja hana. Var konan viss um að Hrafnkell ætlaði að drepa hana. Konan sagði við skýrslutöku að atburðarásin væri á reiki þar sem hún hefði í eitt skipti misst meðvitund.
Skar hana í andlitið
Eftir þetta spurði konan hvort hún mætti ekki fara í sturtu en þá færði Hrafnkell hana með valdi inn á klósett og í sturtu. „Þar hefði ákærði hrint vitninu í gólfið og nauðgað henni aftan frá og ýtt vitninu upp að vegg og tekið það hálstaki. Eftir það hefði ákærði tekið vitnið úr sturtunni og fram á gang. Þá hefði ákærði verið með hníf sem hann hafi geymt í vaskinum á meðan vitnið var í sturtunni, en þegar ákærði ætlaði að fara með vitnið á ný inn í herbergið hefði ákærði hótað vitninu með hnífnum og skorið í andlit þess.
Eftir það hefði ákærði farið með vitnið inn í herbergið og nauðgað vitninu og sagst ætla að stinga það til dauða ef vitnið myndi ekki stynja fyrir hann,“ segir meðal annars í dómi Hæstaréttar.
Líkt og fyrr segir þyngdi Hæstiréttur dóm Hrafnkels úr átta árum í tíu í júní.