Quantcast
Channel: DV.is - RSS straumur
Viewing all articles
Browse latest Browse all 10741

Þóra er í meðferð hjá tannlækni í Ungverjalandi: „Óttinn hvarf þegar ég gekk inn á tannlæknastofuna“

$
0
0

Á síðustu árum hefur það færst í vöxt að Íslendingar ferðist til annarra landa með það að markmiði að fá tannlækningar á betra verði en þekkist hér á landi. Svokallaður tannlækna-túrismi er þó alls ekki nýtt fyrirbæri og margar tannlæknastofur, þá helst í Austur-Evrópu, eru með útibú í öðrum löndum þar sem fólki býðst að fá ókeypis skoðun og meðferðaráætlun.
DV leitaði til nokkurra einstaklinga til að öðlast betri skilning á hverju fólk leitast helst eftir í þessu samhengi og hvað beri að varast. Ásta Óskarsdóttir, formaður Tannlæknafélags Íslands, segir félagið hafa áhyggjur af því að Íslendingar freisti gæfunnar erlendis í leit að ódýrari tannlækningum. Hún segir þennan hóp fólks sjaldnast í leit að meiri gæðum eða betri þjónustu.
Þóra Guðmundsdóttir, fyrrverandi varaformaður Neytendasamtakanna, er í meðferð hjá tannlækni í Búdapest. Hún gagnrýnir íslenska tannlækna fyrir að reka hræðsluáróður gegn tannlækningum í útlöndum. Þá segir Guðmundína Ragnarsdóttir lögmaður, sem missti tennur í kjölfar erfiðrar krabbameinsmeðferðar, að það sé skammarlegt að Sjúkratryggingar Íslands taki ekki meiri þátt í tannlæknakostnaði sjúklinga en raun ber vitni.
Ásta Óskarsdóttir, formaður Tannlæknafélags Íslands
„Fólk sem leitar eftir tannlæknaþjónustu erlendis er sjaldnast að leita eftir meiri gæðum eða betri þjónustu.“ Þetta segir Ásta Óskarsdóttir, formaður Tannlæknafélags Íslands, en tannlæknaþjónusta hér á landi er ekki niðurgreidd líkt og almenn læknisþjónusta. Því þurfa flestir að greiða hana fullu verði. Það hefur reynst fjölmörgum íslenskum ríkisborgurum of stór biti. Þetta er ein helsta ástæða þess að þó nokkuð margir Íslendingar hafa nú þegar, eða eru að skipuleggja, ferðalag yfir hafið með það að markmiði að láta gera við tennurnar í sér.
Býst ekki við meiri vexti
Ásta segir Tannlæknafélagið hafa áhyggjur af því að fólk upplifi þann valkost einan að freista gæfunnar erlendis í leit að ódýrari tannlæknaþjónustu og lendi svo í vandræðum ef eitthvað er ekki eins og það á að vera. Þá minnist hún þess, þegar hún starfaði í Bretlandi í nokkur ár, að hafa séð þetta þar. „Sumir virtust samtvinna það að fara í frí og kaupa sér læknisþjónustu. Mér finnst ekki vera meira um þetta núna en hefur verið. Frekar það að fjölmiðlar virðast hafa meiri áhuga á þessu í ár en oft áður. Það væri óskandi að tannlæknaþjónusta væri niðurgreidd eins og önnur læknisþjónusta þannig að allir ættu þess kost að njóta bestu mögulegu meðferðar.“ Aðspurð hvort hún telji að












Ásta Óskarsdóttir, formaður Tannlæknafélags Íslands Segir íslenska tannlækna samanburðarhæfa við önnur lönd sem starfa eftir sömu gæðastöðlum.


tannlækna-túrismi eigi eftir að aukast á næstu árum svarar Ásta: „Það kæmi mér verulega á óvart ef það yrði mikill vöxtur í þessu. Tannlækningar verða aldrei eins og hver önnur vara, og eiga auðvitað ekki að vera það. Það er verið að eiga við lifandi vef fólks og þá ber að huga að mörgu.
Í gegnum árin hefur íslenskum almenningi verið tíðrætt um hvað það sé dýrt að fara til tannlæknis. Ásta segir það matsatriði hvað sé dýrt og spurning við hvað sé miðað. „Ef við berum okkur saman við aðrar þjóðir, þar sem tannlækningar eru af sömu gæðum, þá tel ég okkur algjörlega samanburðarhæf.“ Þó segir Ásta að við Íslendingar getum ekki horft framhjá því að ef rekstrarumhverfi fyrirtækja væri svipað og í löndunum í kringum okkur þá væri vafalítið hægt að bjóða upp á enn hagkvæmari þjónustu. „Allir vita að það er hvorki ódýrt að kaupa né leigja húsnæði hér á landi. Hvað þá að innrétta það með tugmilljóna tækjabúnaði.“
Ásta er ekki sammála því, sem margir halda fram, að það sé erfitt að bera saman verð á milli tannlækna. Hún segir að best sé að láta tannlækni skoða tennurnar og gera skriflega meðferðar- og kostnaðaráætlun en á Íslandi er verðlagning tannlækna frjáls. Þá eigi, samkvæmt reglugerð, á öllum biðstofum að vera verðskrá með ákveðnum liðum og aðgengi á að vera að heildargjaldskrá tannlækna á hverri stofu.
Stjórnvöld ráða
Þá segir Ásta að gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands sé í litlu samræmi við gjaldskrá tannlækna almennt. „Gjaldskráin hefur ekki verið uppfærð vegna þess að yfirvöld hafa ekki viljað hækka hana síðan 2004 í takt við verðlagsþróun þótt Tannlæknafélagið, og fleiri aðlilar, hafi bent á þetta misræmi sem veldur því að fjöldi aldraðra og öryrkja getur ekki lengur sótt sér þjónustu tannlækna. Það sama gildi fyrir fólk sem hafi, til dæmis, gengið í gegnum erfiðar krabbameinslyfjameðferðir.“
Hún bendir á að yfirvöld þurfi sannarlega að bæta úr þessu. „Það er alltaf pólitísk ákvörðun stjórnvalda hverju sinni hvernig skattfé borgaranna er ráðstafað. Sennilega hafa menn ekki viljað veita meiru fé í þennan málaflokk, jafnvel þó að Tannlæknafélagið, ÖBÍ og einnig Félag eldri borgara hafi bent á þetta margsinnis.“ Að lokum segir Ásta að helstu hugðarefni Tannlæknafélagsins þessa dagana sé að benda stjórnvöldum á ástand lífeyrisþega. Einnig hafi Tannlæknafélagið stórar áhyggjur af tannheilsu ungs fólks sem glímir við kvíða og aðra geðsjúkdóma.
Þóra Guðmundsdóttir, fyrrverandi varaformaður Neytendasamtakanna
„Í mínu tilfelli snýst málið um að láta lagfæra tennurnar í mér, eða ekki.“ Þetta segir Þóra Guðmundsdóttir, fyrrverandi varaformaður Neytendasamtakanna, sem er hjá tannlækni í Búdapest. Þóra þarf á verulegum lagfæringum að halda. Eftir að hafa talað við þrjá tannlækna hér heima, í leit að tilboðum, ákvað hún að leita utan. Enginn þessara þriggja treysti sér til að gefa fast tilboð en lausleg áætlun hljóðaði upp á milljónir.
Pantaði tíma í helgarferð
„Ég hafði heyrt af fólki sem hafði farið til ýmissa landa og fengið þar úrlausn sinna mála fyrir mun lægra verð en hefur boðist hér heima.“ Því var það í helgarferð til Búdapest, árið 2015, sem hún pantaði tíma á tannlæknastofu sem hún fann eftir leit á netinu. Í fyrsta tímanum, sem var ókeypis, fékk Þóra útprentaða og sundurliðaða meðferðaráætlun frá tannlækninum þar sem stóð nákvæmlega hvað þyrfti að gera, hvernig, með hvaða efnum og hvað það myndi kosta.
Af óviðráðanlegum ástæðum komst Þóra þó ekki aftur til Búdapest fyrr en í sumar. Ekki var hægt að fylgja meðferðaráætluninni þar sem ástandið hafði versnað á þessum tveimur árum og því þurfti að gera ákveðinn undirbúning. Þóra þarf því að mæta einu sinni í viðbót til tannlæknisins í Búdapest. Það hefur þó ekki, að sögn Þóru, mikinn aukakostnað í för með sér þar sem hægt er að fá ódýrt flug og gistingu í Búdapest. Þá segir hún verðlag þar hagstætt og borgina fallega.












Þóra Guðmundsdóttir, fyrrverandi varaformaður Neytendasamtakanna. Er hjá tannlækni í Búdapest.


Aðspurð hvort hún hafi fengið efasemdir um að fara til útlanda í leit að ódýrum tannlækni, svarar Þóra: „Ég neita því ekki að helst hefði ég viljað sleppa við það að leita út fyrir landsteinana. Enda hefur verið rekinn talsverður hræðsluáróður gegn tannlækningum í útlöndum. Óttinn hvarf um leið og ég gekk inn á tannlæknastofuna. Hún var einstaklega vel útbúin tækjum og tólum. Svo þegar ég hitti tannlækninn og starfsfólkið sannfærðist ég endanlega um að ég væri að gera rétt. Þetta virðist vera fagfólk fram í fingurgóma sem talar mjög góða ensku. Ég treysti þeim mjög vel.“ Þá hitti Þóra í síðustu heimsókn nokkra Breta og einn Ástrala, búsettan á Spáni. Öll höfðu lokið meðferð á stofunni. Hún segir þau hafa verið mjög sátt og borið tannlæknunum gott vitni.“
Allt annað verðlag
Eins og fyrr segir þá er verðlagið allt annað í Búdapest en á Íslandi. „Sem dæmi má nefna að verð fyrir krónu á tönn hér er á bilinu 100 til 150 þúsund. En í Búdapest er verðbilið 30 til 50 þúsund. Viðskiptavinir stofunnar fá aðstoð við að bóka gistingu og eru keyrðir til og frá flugvellinum. Þá býðst þeim akstur til og frá gististað á tannlæknastofuna sér að kostnaðarlausu," segir Þóra og bætir við að allt sé gert til að auðvelda fólki lífið meðan á dvöl þeirra stendur.
Þóra telur enga spurningu um að á næstu misserum verði sprenging í því að Íslendingar fari utan með það að markmiði að fara til tannlæknis. „Núna fer fólk mikið til dæmis til Póllands, Króatíu, Taílands og meira að segja Indlands. Það er ekkert mál að fá upplýsingar um viðkomandi stofur og leita umsagna á netinu. Tannlæknar í þessum löndum eru hámenntaðir og það er fráleitt að halda að tannlæknar í einu fámennasta landi Evrópu séu þeir einu sem kunni að gera við tennur.“
Guðmundína Ragnarsdóttir, lögmaður
„Það er gríðarlegt áfall, ofan á það að greinast með krabbamein, að standa uppi með ónýtar tennur.“ Þetta segir Guðmundína Ragnarsdóttir lögmaður, sem fer í næstu viku til Gdansk í Póllandi til að fá heildarúrlausn bágrar tannheilsu. Guðmundína greindist með brjóstakrabbamein árið 2011. Áður en hún hóf lyfjameðferðina var Guðmundínu ráðlagt að láta gera við tennurnar þar sem krabbameinslyfin myndu hafa slæm áhrif á tannheilsu hennar.
Krabbameinsmeðferðin skemmdi tennurnar
Guðmundína kveðst ætíð hafa verið með lélegar tennur. Áður en lyfjameðferðin hófst fór hún til tannlæknis sem gerði við eins og hægt var. Í lyfjameðferðinni fékk Guðmundína tíðar sýkingar, þar með talið í munninn. Á árunum 2012 og 2013 var ástandið á tönnum Guðmundínu orðið svo slæmt að nánast allir jaxlarnir höfðu þá verið fjarlægðir, bæði uppi og niðri.
Eftir að Guðmundína sigraðist á meininu, árið 2012, ákvað hún að leita til tannlækna hérlendis í því skyni að fá m.a. tanninnplönt sem ljóst var að yrði mjög kostnaðarsamt. Hún hélt að hægt væri að leita eftir styrk vegna tannlækninga þar sem tennurnar í henni voru meira og minna ónýtar. „Krabbameinsmeðferðin hafði mikil áhrif á fjárhaginn. Allur sparnaður fuðraði upp á mjög skömmum tíma. Þar sem ég er sjálfstæður atvinnurekandi var ég meira og minna tekjulaus á meðan ég var veik.“
Skömm fylgir slæmri tannheilsu
Það hefur haft slæm áhrif á sjálfstraust Guðmundínu, en hún segir mikla skömm fylgja því að vera tannlaus. „Fólk skammast sín fyrir það að vera tannlaust. Fáir viðurkenna að þeir hafi hreinlega ekki efni á að fara til tannlæknis. Mig grunar að mjög margir séu með skemmdar tennur eða vanti tennur en vilji ekki tala um það.“












Guðmundína Ragnarsdóttir fer til Gdansk í næstu viku Tannheilsunni hrakaði og Guðmundína missti tennur í kjölfar erfiðrar lyfjameðferðar.


Mynd: Úr einkasafni

Þá kveðst Guðmundína hálfpartinn hafa gert ráð fyrir því að Sjúkratryggingar Íslands myndu niðurgreiða stóran hluta af tannlæknakostnaðinum, sem hún stóð frammi fyrir sökum lyfjameðferðarinnar, en svo var aldeilis ekki. „Mér fannst það mjög ósanngjarnt. Að lokum, eftir að hafa eytt á milli 200 og 300 þúsund í tannlæknakostnað, þurfti ég að ákveða hvort ég vildi halda heimilinu mínu eða kaupa nýjar tennur.“
Guðmundína ákvað að halda heimilinu í stað þess að leggja milljónir út í tannlæknakostað. „Ég er fyrst núna, fimm árum síðar, að ná mér aftur á ágætt ról fjárhagslega eftir veikindin. Samt sem áður hefði ég aldrei efni á að fara í sambærilega meðferð hérna heima eins og í Póllandi, enda hleypur kostnaður hér heima á mörgum milljónum.“
Sparar háar fjárhæðir
Tannlæknastöðin sem er í Gdansk í Póllandi er að mati Guðmundínu, sem og fleiri Íslendinga sem hafa verið þar í meðferðum, traustvekjandi og nýtískuleg. Þá þykir Guðmundínu það mikill kostur að gjaldskráin er aðgengileg á netinu. „Ég verð í viku núna. Þá verða teknar myndir og í framhaldinu fæ ég meðferðaráætlun. Mér sýnist á öllu að þetta muni kosta á bilinu ein og hálf til tvær milljónir. Það er að byggja upp tannbein og fá tannplanta. Sambærileg meðferð myndi kosta alla vega fjórar til fimm milljónir á Íslandi, ef ekki meira.“
Eftir um það bil fjóra mánuði fer Guðmundína svo aftur til Gdansk til að fá postulínskrónur. „Tannlæknastöðin er með samning við tvö hótel í borginni. Þau senda mann eftir mér svo ég þarf ekki að hugsa um að koma mér á milli staða. Deyfing og allar myndatökur eru jafnframt fríar. „Maður fengi seint sömu þjónustu hérna heima.“
Guðmundína fór nýverið og hitti tannlækninn sinn og sagði honum frá því að hún hygðist fara til Póllands til að fá tannlæknaþjónustu á viðráðanlegu verði. „Hann skyldi þetta fullkomlega og sagði að það væri ágætt hjá mér að gera þetta svona.“
Ekki allt best á Íslandi
Að lokum segir Guðmundína að það sé nóg komið af þeim hugsunarhætti að allt sé best á Íslandi. „Ég veit að tannlæknateymið sem ég verð hjá er allt hámenntað og notar sambærileg efni og íslenskir tannlæknar. Það er orðið svo auðvelt, og ódýrt, að hoppa upp í flugvél. Á meðan tannlækningar eru jafn dýrar á Íslandi og raun ber vitni á fólk auðvitað að nýta sér þennan tannlækna-túrisma. Á heimasíðum tannlæknastofa erlendis sem þjónusta útlendinga má sjá að mjög margir viðskiptavinir eru frá til dæmis Norðurlöndum og Bretlandseyjum. Við Íslendingar ættum því ekki að vera hrædd við að nota sömu þjónustu á margfalt lægra verði en í heimalandinu.“


Viewing all articles
Browse latest Browse all 10741